Innskráning í Karellen
news

​Tilmæli til foreldra um mætingu

16. 03. 2020

Tilmæli til foreldra um mætingu

Kæru foreldrar/forráðaaðilar
Hér eru leiðbeiningar um næstu daga sem er gríðarlega mikilvægt að lesa vel og fylgja eftir. Við erum glöð að svara öllum fyrirspurnum en biðjum ykkur að kynna ykkur tilmælin vel. Til að tryggja að allir skilgreindir hópar í skólanum blandist ekki og minnka líkur á að veiran dreifist, komi upp smit, þá höfum við úthlutað hverjum kjarna tíma til að mæta í skólann. Gríðarlega mikilvægt er að þú mætir með barnið þitt á réttum tíma til að tryggja að fyrirkomulagið gangi vel fyrir sig.

Fyrirkomulagið í þessari viku verður svona:
Á þriðjudag og miðvikudag mæta 5, 6 og 7 ára börn í skólann en á fimmtudag og föstudag mæta 8, 9 ára og miðstig í skólann.

5 ára börn mæta á sinn kjarna kl. 08:45 og eru sótt kl. 16:00
6 ára börn mæta á sinn kjarna kl. 09:00 og eru sótt kl. 14:00
7 ára börn mæta á sinn kjarna kl. 9:15 og eru sótt kl. 14:15

Á fimmtudag og föstudag mæta
8 ára börn á sinn kjarna kl. 8:45 og eru sótt kl.13:45
9 ára börn á sinn kjarna kl. 9:00 og eru sótt kl. 14:00
Miðstig á sinn kjarna kl. 9:15 og eru sótt kl. 14:15

Leitast skal við að þeir kennarar sem vinna með börnum fylgi þeim meðan á samkomubanninu stendur. Ekki er leyft að færa börn eða starfsfólk milli hópa. Með því fyrirkomulagi sem nú er sett upp verður búið að ákveða hvaða starfsfólk fylgir þínu barni meðan að samkomubann ríkir. Þannig er tryggt að sem fæst fingraför verði og minni hætta á smiti. Það þýðir hins vegar það að ef sá starfsmaður dettur út, þá getur barnið ekki komið í skólann.
Tryggt er að starfsfólk hittist ekki nema það sem fylgist að í því verklagi sem nú er sett upp og er saman á hverjum kjarna fyrir sig.
Ítrustu kröfum hreinlætis verður gætt, munu nemendur byrja daginn með handþvotti sem og verður skólinn sérstaklega þrifinn og sótthreinsaður í lok hvers dags.
Sérstök áhersla er á meðhöndlun matar og hreinlætis í eldhúsi og mun starfsfólk ekki eiga samskipti við annað starfsfólk á meðan að samkomubann ríkir.
Við munum taka upp nákvæma skráningu á veikindum og því mikilvægt að heyra í okkur ef barnið er ekki í skólanum. Mikilvægt er að allar upplýsingar séu til staðar fyrir Embætti Landlæknis.
Viljum sérstaklega benda foreldrum á góða upplýsingasíðu á vegum Landlæknis.
https://www.landlaeknir.is/kor…/thad-sem-thu-tharft-ad-vita/

Á þessum tímum teljum við okkur heppin að hafa ykkur sem foreldra í okkar hópi. Við vitum sem er að samvinna okkar kæru foreldrar gegnir lykilhlutverki í því verkefni sem framundan er. Þannig munum við saman stuðla að öryggi og sem bestri líðan barnanna.

Hlýjar kveðjur

Ragnhildur Ásgeirsdóttir
Skólastjóri Barnaskólans í Reykjavík

© 2016 - Karellen