Skólanámskrá Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík

Almennur hluti

Samkvæmt lögum um grunnskóla https://www.menntamalaraduneyti.is/log-og-reglugerdir/ ber grunnskólum að gefa út skólanámskrá og skal hver skóli birta stefnu sína með tvennum hætti. Annars vegar er almenn stefnumörkun birt í skólanámskrá og hins vegar upplýsingar, sem eru breytilegar frá ári til árs, birtar í árlegri starfsáætlun. Skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð skólanámskrár og starfsáætlunar og skal semja þær í samráði við kennara skólans, en sú vinna er kjörinn vettvangur fyrir kennara til að móta og skipuleggja skólastarf sem framundan er hverju sinni. Námskráin er nánari útfærsla á aðalnámskrá grunnskóla og dregur fram sérkenni sem nýtt eru til eflingar í námi og kennslu. Námsmarkmið eru sett skýrt fram svo að hvorki kennarar, nemendur né foreldrar velkist í vafa um hvaða kröfur eru gerðar til nemenda og skóla, líkt og aðalnámskrá leggur ríka áherslu á. Aðalnámskrá setur skólum almenn viðmið en það er aftur á móti hvers skóla að útfæra þau nánar í sinni skólanámskrá bæði með tilliti til þess nemendahóps sem stundar nám í skólanum sem og þeirra kennsluhátta sem skólinn aðhyllist. Í skólaráði skal fjalla um skólanámskrá og árlega starfsáætlun skóla. Skólanefnd staðfestir gildistöku þeirra þegar ljóst er að þær hafa verið unnar í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá, skólastefnu, kjarasamninga og ákvarðanir sveitarstjórnar um fyrirkomulag skólahalds.

Stefna og sérstaða skólans

Skólastefnan – Hjallastefnan

Barnaskóli Hjallastefnunnar í Reykjavík byggir á hugmyndafræði stefnunnar, annars vegar á innri þáttum eins og hugsjónum, gildum, viðhorfum, mannskilningi og lífssýn sem birtast í meginreglum og kynjanámskrá og hins vegar í ytri þáttum eins og skipulagi, starfsháttum og aðferðum sem einkenna alla Hjallastefnuskólana. Þar hafa hugsjónir okkar mótað hið síðarnefnda svo að þær séu ekki orðin tóm, allt frá hinu smæsta til hins stærsta. Stöðugt þarf að fága og endurskoða hverja framkvæmd svo að hún styðji markmið okkar og rími við aðrar lausnir. Hugmyndafræði Hjallastefnunnar á grunnskólastigi er í fullum samhljómi við lög um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla.

Grunnurinn - allra hagur

Allt starf Hjallastefnunnar miðast að því að leita jákvæðra leiða fyrir allt það fólk sem að skólanum kemur, bæði börn og foreldra, kennara og annað starfsfólk, sem og sveitarfélögin - með öðrum orðum, allt grenndarsamfélagið. Allar lausnir verða að virka fyrir okkur öll og það gildir fyrir allt starfsfólk sem starfar við skólann. Hver kennari verður að spyrja sig erfiðra spurninga sem lúta að námsárangri barnanna og samskiptum við þau og skólastýra/-stjóri verður að gera slíkt hið sama í samskiptum sínum við starfsfólk og hvað varðar annan rekstur skólans.

Kynjaskipt skólastarf, uppbótarvinna og blöndun

Hjá Hjallastefnunni er gengið út frá þeirri kennisetningu að kynin öðlist takmarkaða færni og æfi of fáa eiginleika vegna heftandi hugmynda um kynhlutverk og vegna kynjamótunar sem samfélagið ákvarðar á grundvelli kyns. Kynjaskipt skólastarf er forsenda þess að stúlkur og drengir fái að æfa alla persónulega eiginleika. Hér er rætt um tvö kyn, en Hjallastefnan bregst við öllum kynjum af jafnrétti og þau börn sem skynja líkamlegt kyn annað en félagslegt, eiga rétt á að velja sér kjarna eftir eigin óskum.

En til þess að okkar kynjaskipta skólastarf skili árangri er mikilvægt að börnin fái að æfa alla þá eiginleika sem gera þau að heilum einstaklingum með svokallaðri uppbótarvinnu. Hún byggir á þeirri einföldu hugmynd að æfingin skapi meistarann – að það sé jafn einfalt að æfa mikilvæga persónueiginleika eins og annað námsefni. Allt er gerlegt ef æfingin er fyrir hendi og börn ráða vel yfir hæfninni til að ná valdi á öllum mann-/kvenlegum eiginleikum ef góð þjálfun og fyrirmyndir eru fyrir hendi á næmiskeiðum þroskans.

Daglega eru kynjablandaðir hópatímar, þannig að drengir og stúlkur hittast og vinna saman verkefni eða leika sér saman. Í kynjablöndun er ávallt haft í huga að búa ekki til samkeppni milli kynjanna og skapa bæði stúlkum og drengjum jákvætt viðhorf hvors til annars. Í öllum verkefnum og leikjum hittast börnin á þeim vettvangi sem styrkleikar beggja kynja njóta sín.

Meginreglur og kynjanámskrá

Hér má sjá hvernig stóru markmiðin fléttast saman í meginreglum og kynjanámskrá, stoðunum tveimur, sem ramma inn alla hugmyndafræði okkar.
Meginreglurnar vísa veginn í þeirri skólamenningu sem Hjallastefnuskólar stefna á, á degi hverjum, með mannskilningi og þeirri lífssýn sem Hjallastefnufólk sameinast um. Auk þess er hlutverk meginreglnanna að grundvalla skipulag skólans í stóru sem smáu, eins og dagskipulagi, tímafyrirkomulagi kennara, svo og vali á námsgögnum og efniviði svo dæmi séu nefnd. Kynjanámskráin er útfærsla á hugmyndafræði Hjallastefnunnar, þar sem markmiðið er að tryggja jafnrétti kynjanna sem og annarra hópa og veita börnum frelsi frá neikvæðum afleiðingum kynjakerfisins og staðalmyndum. Kynjanámskráin tryggir að öll börn fái heildstæða þjálfun í mannlegum eiginleikum óháð kyni, en markmiðið er að veita börnum tækifæri til að leika og læra á eigin forsendum án takmarkana sem kynjakerfið setur.

Skipulag og aðstæður

Skólafötin og notkun þeirra af hálfu barna og kennara er sáraeinföld leið til að jafna stöðu barna og tryggja að ekki verði til óréttlát samkeppni á grundvelli þess hvaða fjölskyldur hafa efni á nýjustu og dýrustu merkjavörunum hverju sinni. Að auki skapa þau liðsheild og samkennd, draga úr áhyggjum barna yfir að fínu fötin skemmist í skólanum og þess í stað eru þau alltaf í hentugum vinnufatnaði.

Engar kerfisbundnar frímínútur eru fyrir hendi heldur fara kennarar daglega út með sínum hópi til að sækja sér hreint loft og hreyfingu. Þá gefst börnunum tækifæri til að leika sér í frjálsum leik og kennarar eru með yfirsýn og fylgjast með samskiptum.

Kennarar borða með sínum barnahópi inni á kjarna í friði og ró, til að aldrei verði mikill fjöldi barna á einum stað með tilheyrandi hávaða og streitu sbr. viðmiðunarreglur um matartíma.

Efniviður og námsgögn

Efniviður, námsgögn og leikefni í Hjallastefnuskólum víkur talsvert frá því sem einkennir hefðbundna skóla. Til viðbótar hinni einföldu dagskrá og rósemd í umhverfinu, er opni efniviðurinn einnig einfaldur, bæði námsgögn í hópastarfi kennara og leikefni barna í valtímum. Markmið með einfaldleikanum er annars vegar sköpun og frumleiki og hins vegar sjálfbærni og sjálfstæði, þar sem bæði börn og fullorðnir vinna lausnamiðað og leysa málin á fjölbreyttan hátt.

Kjarnasmiðjur, smiðjur

Kjarnasmiðjur eru kenndar 2-3 sinnum í viku þar sem námsgreinar aðalnámskrár eru teknar fyrir, þ.e. náttúrugreinar, samfélagsgreinar, heimilisfræði og upplýsinga/tæknimennt. Þessar námsgreinar eru unnar þverfaglega og taka mislangan tíma eftir því hversu yfirgripsmikið námsefnið er hverju sinni. Kynjanámskrá Hjallastefnunnar er unnin í kjarnasmiðjum líkt og öðrum námsgreinum. Samþætting námsgreina dýpkar skilning á efninu og gerir námið dýnamískara. Farnar eru ólíkar leiðir í upplýsingasköpun, en börnin nota vísindarit, bækur, uppflettirit, tölvur o.fl. við sína rannsóknarvinnu og þau fá mismunandi möguleika og leiðir til að skila frá sér verkefninu.

Handverk og listgreinar eru kenndar í smiðjum. Hver smiðja er kennd fjórum sinnum í viku, í tvær vikur í senn. Þessi smiðjuhringur er keyrður á haust- og vorönn.

Kennsludagurinn skiptist á eftirfarandi hátt:

08:30/9:00 - 10:45 Hópatími/vinnulota

10:45 – 11:00 Ávaxtastund, söngur og valfundur

11:00 – 11:30 Innival

11:30 - 12:00 Útivera

12:00 – 12:30 Hádegismatur

,12:30-14:30 Hópatími/smiðjur/kjarnasmiður/brautir

30 mínútur á dag eru bundnar í val, en það er tími barnanna sem hefst með valfundi og er þjálfun okkar í lýðræði og samfélagslegri hegðun. Þar velja börnin á milli ýmiss konar valstöðva sem eru breytilegar eftir aldri barnanna og árstíð. Þar má nefna listir, spil, námstengt val, hljóðlestur, skák, kubbar og fleira.

Síðdegisstarf

Frístundaskóli er fyrir og eftir eiginlegt skólastarf. Hann er í boði frá kl. 7:45 – 9:00 á morgana og gefst þá börnunum kostur á að fá morgunverð í rólegu umhverfi og koma sér fyrir í notalegu starfi inni á kjarna. Eftir að skóla lýkur tekur frístundastarf aftur við kl. 14:30 – 16.30 og er þá boðið upp á nónhressingu og valstöðvar sem eru fjölbreyttar yfir veturinn. Boðið er upp á ýmiss konar námskeið í frístundastarfinu s.s. skáknámskeið, hljómsveit, myndlistar- og handverksnámskeið, flautu-, gítar, trommu- og ukulelekennslu svo eitthvað sé nefnt.© 2016 - Karellen