Innskráning í Karellen
news

Viljayfirlýsing um nýju Höllina okkar

29. 04. 2022

Kæru starfsfólk og kæru foreldrar.

Við höfum öll beðið með öndina í hálsinum eftir að fá niðurstöðu í húsnæðismál skólasamfélagsins okkar hér í Öskjuhlíð.

Eins og þið vitið eflaust öll vorum við búin að leggja mikla vinnu í að reyna komast í Heilsuverndarstöðina við Barónsstíg, fá allskonar úttektir og gera mikla kostnaðargreiningu. Samningar við eiganda báru því miður ekki árangur en hann vildi ekki standa við þau atriði sem búið var að undirrita í viljayfirlýsingu og við treystum okkur ekki áfram í samningaviðræður við hann.

Þarna töpuðum við dýrmætum tíma og lítill sem enginn tími til stefnu. Við gáfumst samt ekki upp og erum nú vonandi komin með enn betri niðurstöðu en í dag var undirrituð viljayfirlýsing við eigendur að Flugvallarvegi 3-3A þar sem Mjölnir er núna, gamla Keiluhöllin. Í viljayfirlýsingu er gert ráð fyrir að húsnæðinu verði gjörbreytt fyrir okkar starfsemi. Við erum gríðarlega spennt fyrir þessum möguleika en það er enn mikil vinna sem á eftir að fara fram og þó að allt gangi upp þá verður framkvæmdum ekki lokið þegar börnin okkar koma úr sumarfríi.

Við höfum verið með alla anga úti við að leita að bráðabirgðahúsnæði fyrir báða skólana fyrir næsta skólaár. Þar eru nokkrir möguleikar á borðinu.

Við erum búin að vera í allskonar viðræðum sem hafa verið viðkvæmar og höfum við því miður ekki getað upplýst ykkur fyrr en nú um stöðu mála. Það var erfitt þegar staðan var þröng að geta upplýst ykkur, við þurftum fyrst að finna leiðina. Nú erum við hins vegar komin með bolta sem hægt er að elta. Þá er verðmætt að fá ykkur öll aftur inn í ferlið.

Við gerum áfram allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja framtíð skólasamfélagsins með hópi magnaðra foreldra sem eru að leggja mikla vinnu og ómældan tíma í að láta þetta allt ganga upp með okkur, ómetanlegt.

Hlýjar kveðjur,

Linda Björk og Silja


© 2016 - Karellen