Námskrá skólans

Í skólanámskrá Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík er greint frá starfsemi skólans, sérstöðu hans og aðstæðum. Skólanámskráin er upplýsingarit fyrir foreldra, kennara og annað starfsfólk skólans. Skólanámskráin tekur á öllum þáttum starfsins og er bundin af aðalnámskrá grunnskóla og lögum um grunnskóla.

Skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð skólanámskrár. Námskráin er nánari útfærsla á aðalnámskrá grunnskóla og dregur fram sérkenni sem nýtt eru til eflingar í námi og kennslu. Námsmarkmið eru sett skýrt fram svo að hvorki kennarar, nemendur né foreldrar velkist í vafa um hvaða kröfur eru gerðar til nemenda og skóla, líkt og aðalnámskrá leggur ríka áherslu á. Aðalnámskrá setur skólum almenn viðmið en það er aftur á móti hvers skóla að útfæra þau nánar í skólanámskrá bæði með tilliti til þess nemendahóps sem stundar nám í skólanum sem og þeirra kennsluhátta sem skólinn aðhyllist.

Í skólanámskrá birtist stefna skólans og þau gildi sem hún grundvallast á og hvernig skólinn útfærir ýmis almenn og fagbundin markmið aðalnámskrár, skipulag kennslu og kennsluhætti. Einnig skal fjallað um sjálfsmatsáætlun og tilhögun námsmats.

Í skólanámskrá birtir skólinn starfsáætlun sína og þær verklagsreglur sem eru í gildi í skólanum. Í skólanámskrá kemur fram lýsing á samsetningu námshópa og bekkjaskipan og rök skólans fyrir þeirri skipan. Jafnframt hvernig skólinn hyggst stuðla að jákvæðum og lýðræðislegum skólabrag. Brýnt er að skóli rækti tengsl við ýmsa aðila utan skólans. Því er lýst í skólanámskrá hvernig samstarfi heimila og skóla er háttað.

Við framsetningu markmiða í aðalnámskrá er miðað við að þorri nemenda nái markmiðum á svipuðum tíma. Hins vegar er ljóst að sumir nemendur ná settum markmiðum á mun skemmri tíma á meðan aðrir þurfa lengri tíma til þess. Í skólanámskrá þarf að koma fram hvernig skólinn hyggst mæta mismunandi þörfum nemenda. Skylt er að leggja skólanámskrá fyrir skólaráð skólans til umsagnar á hverju ári með góðum fyrirvara auk þess sem kynna skal hana fyrir nemendaráði (Aðalnámskrá grunnskóla 2011).

Hér er hægt að sækja skólanámskrána: Skólanámskrá Barnaskólans í Reykjavík

© 2016 - Karellen